Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2008

Grunnskóli Siglufjarðar tryggðu sér sæti í úrslitum í Skólahreysti 2008

Grunnskóli Siglufjarðar tryggðu sér sæti í úrslitum í Skólahreysti 2008, sem fram fer í Laugardalshöll 17. apríl nk. Tvær keppnir fóru fram í Íþróttahöllinni Akureyri í gær, þar sem alls 18 skólar kepptu í tveimur riðlum. Í fyrri riðlinum kepptu skólar úr dreifbýli, alls ellefu lið. Keppnin var jöfn og spennandi og voru það lið Reykjahlíðarskóla, Dalvíkurskóla og Grunnskóla Siglufjarðar sem leiddu keppnina allan tímann þar til Grunnskóli Siglufjarðar hafði sigur.

Lið Grunnskóla Siglufjarðar hafði titil að verja frá fyrra ári. Þau komu kappsfull til leiks og augljóslega ákveðin í að taka vel á því. Guðrún Ósk Gestsdóttir sigraði í armbeygjunum, tók 48 stk. Ástþór Árnason tók 25 dýfur og náði fyrsta sæti.

Spennustigið var hátt fyrir síðustu grein, hraðaþraut. Þá var Grunnskóli.Siglufjarðar með 36,5 stig og Dalvíkurskóli aðeins hálfu stigi á eftir þeim eða með 36 stig. Svava og Anton frá Grunnskóla Siglufjarðar sigruðu hraðaþrautina og innsigluðu þar með sigur skólans og náði liðið sér samtals í 58,5 stig.

Glæsilegt hjá krökkunum og er maður stoltur af þessu glæsilega íþróttafólki, en hún Guðrún Ósk Gestsdóttir var kjörin íþróttamaður ársins á Siglufirði fyrir nokkrum dögum síðan, til lukku krakkar og svo er bara að taka titilinn þegar í úrslitakeppnina er komið.


siglo5 grunnskóli


Búið að ráða verkefnisstjóra væntanlegs framhaldsskóla í Ólafsfirði

Þá er það klárt, verður þá ekki næsta skref að fá menntamálaráðherra til að koma í Ólafsfjörð og taka fyrstu skóflustungu, maður bíður spenntur?

"Jón Eggert Bragason framhaldsskólakennari í Reykjavík hefur verið ráðinn verkefnisstjóri væntanlegs framhaldsskóla við utanverðan Eyjafjörð." tekið að vef www.fjallabyggð 

það er alveg ljóst að þetta er stóriðja okkar íbúa við utanverðan Eyjafjörð svo ekki sé meira sagt, að þurfa að senda 16 ára börn að heiman er ekkert grín og margir áhyggjufullir foreldrar sem það hafa upplifað sjá fram á bjartari tíma þegar þessi skóli okkar rís.

Ég hef fengið nokkra tölvupósta frá brottfluttum Siglfirðingum sem segjast lesa þessar hugrenningar mína og hafa hvatt mig til að koma með upplýsingar úr stjórnsýslunni og bæjarmálunum. Ég reyni að verða við þeirra beiðni eins og mér er mögulegt.

Ég var með fyrirspurnir undir önnur mál í bæjarráði í gær.

Önnur mál:

1)    Snjótroðari.
Fyrirspurn frá Hermanni Einarssyni.
Hvenær má búast við að nýr snjótroðari sem búið er að kaupa verði komin í Skarðið, Siglufirði?
Bæjarstjóri greindi frá því að snjótroðari sé væntanlegur til Siglufjarðar fyrir páska.

2)    Byggðakvóti.
Fyrirspurn frá Hermanni Einarssyni.
Hvernig standa mál varðandi byggðakvóta?
Bæjarstjóri greindi frá fyrirhuguðum fundi með sjárvarútvegsráðherra í næstu viku.

svo er hægt að nálgast allar fundargerðir hérna www.fjallabyggd.is

 


Álver á BAKKA strax

Það var samþykkt samhljóða hjá bæjarráði Fjallabyggðar tillaga að ályktun um álver á Bakka.

Tillaga til ályktunar um álver á Bakka  Á undanförnum árum hefur mikill samdráttur í fiskvinnslu og landbúnaði haft veruleg áhrif á afkomu fólks, atvinnuöryggi og búsetu á landsbyggðinni. Á síðustu 10 árum hefur íbúum á svæðinu frá Húsavík til Raufarhafnar, sem nú heitir Norðurþing, fækkað um 15%. Mest hefur fækkunin verið í aldurshópnum 40 ára og yngri, en í þeim aldursflokki hefur íbúum fækkað um 25% Þá má geta þess að á síðastliðnum 10 árum hefur íbúum Fjallabyggðar fækkað um 25%  Kjölfesta í atvinnumálum er nauðsynleg til þess að snúa vörn í sókn og viðhalda gróskumikilli byggð á Norðausturlandi. Fyrirhugað álver á Bakka getur skapað þessa kjölfestu. Það er alveg ljóst að Norðausturland býr ekki við þá þenslu sem er á Suðvesturhorni landsins og því skorar bæjarráð Fjallabyggðar á stjórnvöld að beita sér fyrir því að af þessum framkvæmdum geti orðið sem fyrst.

það verður að segjast eins og er að ég eins og svo margir aðrir íbúar þessa skers höfum áhyggjur af því að landið sé hreinlega að sporðreisast.

þess vegna er afar brýnt að allar framkvæmdir um næstu stóriðju verði á norðausturlandi en ekki á suðvesturhorni skersins.


Ef þú býður vínarbrauð þá er samgönguráðherra mættur

Kristján L. Möller samgönguráðherra brást fljótt og vel við þegar Gunnar I. Birgisson, bæjarstjóri í Kópavogi, lýsti eftir honum í Mogganum í morgun.Að sjálfsögðu var sent eftir vínarbrauði handa bæjarstjóranum og ráðherranum.

Í Moggagreininni sýndi Gunnar óþekkta takta og segir: “Þeir eru ófáir morgnarnir sem ég hef setið einn að rúnstykkjunum og sætabrauðinu eins og hryggbrotin mær með þeim afleiðingum sem sjá má á holdafari ljósmyndafyrirsætu ársins.”

Ráðherrastarfið tekur tíma og er álagið eflaust mikið en er ekki komin uppskrift að því að nálgast ráðherrann, en ég hef haft að því spurnir að erfitt sé að ná af honum tali?

 


Vatnsmýrin til margs nýtileg

Já þetta er mögnuð frétt, fyrir það fyrsta var ekki verið að kynna hugmynd að nýju skipulagi Vatnsmýrarinnar og var nokkuð gert ráð fyrir flugvelli nei það er alveg deginum ljósara.

Fagna því ef IE ætlar að skella sér í slaginn um innanlandsflugið, ég var tengdur Íslandsflugi á sínum tíma þegar þeir hófu flug til Akureyrar og viti menn þeir höfðu með sér "Kennydianna" og fleiri góða borgara en það dugði ekki til. Það var nefnilega þannig að þeir sem hæst gögguðu um að það vantaði samkeppni voru ekki að nýta sér hana loksins þegar hún kom. 

Nei margir Akureyringar hugsuð nefnilega með sér að þeir hefðu nú alltaf haft Flugfélagið og væri bara gott að haf þá áfram en frábært að samkeppnin hafði þau áhrif að verðið lækkaði (tímabundið). Svo var annað merkilegt en það voru punktarnir sem Flugfélagið veitti en það er nú svo að þeir sem ferðast á vegum fyrirtækja eða stofnana fá punkta skráða á sig þó svo að fyrirtækið eða stofnanir borgi brúsann.

En gott ef það á að auka umsvif innanlandsflugsins í Vatnsmýrinni svo ekki sé meira sagt.

 


mbl.is Iceland Express fær lóð í Vatnsmýrinni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Tveggja þjónn" frumsýnt hjá Leikfélagi Siglufjarðar

Leikfélag Siglufjarðar frumsýndi föstudaginn 22. febrúar, ærslafulla gamanleikinn Tveggja þjónn eftir Carlo Goldoni í leikstjórn Elvars Loga Hannessonar.

Leikarar eru 12 talsins en fjöldi manns hefur lagt leikfélaginu lið við þessa uppsetningu.  T.a.m. fékk L.S. til liðs við sig unglinga í leiklistarvali í 9. bekk Grunnskóla Siglufjarðar og hafa þau staðið sig fádæma vel.  Mikill áhugi er hjá krökkunum en þau leika, sjá um tæknimál og hafa aðstoðað við æfingar.  Eiga þau mikið hrós skilið fyrir elju og dugnað.

 

Ég veit að allir sem koma að þessari sýningu hafa lagt mikið á sig og eru þau líka að uppskera árangur erfiðisins. Ég hef heyrt frá þeim sem hafa séð sýninguna að þetta sé mjög skemmtilegt og vel gert hjá leikurunum, ég kannast við strákinn Tuma sem fer með þokkalega stórt hlutverk og gengur hann undir nafninu Tumi Cruse eftir frammistöðu sína í leikritinu. Stefnt er á að sjá leikritið á næstunni, til lukku Leikfélag Siglufjarðar.


Hinn íslenzki Þursaflokkur og Sr. Bjarni Þorsteinsson

Tekið af vef  tónlist.is "Hljómplatan Hinn íslenzki Þursaflokkur kom upprunanlega út þann 2. október 1978. Lögin sem hér eru saman komin eru flest úr bók síra Bjarna Þorsteinssonar íslenzk þjóðlög, sem út kom fyrst á árinu 1906-1909, en aftur síðar á því blessaða þjóðhátíðarári 1974. Laglínur eru að mestu óbreyttar frá bók Bjarna en þar sem henni sleppir - og raunar ætíð þegar svo ber undir - leyfa Þursarnir sér að bregða á leik."

Ég átti ekki möguleika á að komast á tónleika þeirra Þursa í gær og græt enn. Það sem mér finnst mjög áhugavert er að í blogg færslu minni hér á undan er minnst á Þjóðlagasetur Sr. Bjarna Þorsteinssonar og er ég viss að það eru ekki margir aðdáendur Þursanna sem vita af þessu merka safni. Ég vildi sjá þá félaga koma á næstu Þjóðlagahátíð á Sigló og halda tónleika það væri toppurinn á Þjóðlagahátíð allavega að mínu mati.

Tekið af plötuumslagi NÚTÍMINN en þar segir meðal annars.

"Þótt ekki virðist vera til mörg virkilega gömul íslensk þjóðlög, þá er til nokkur fjársjóður í íslenskum lögum frá fyrri tíð. Séra Bjarni Þorsteinsson, klerkur á Siglufirði á seinni hluta nítjándu aldar og fyrri hluta þeirrar tuttugustu safnaði saman miklum fjársjóði í bók sem heitir Íslensk þjóðlög og kom fyrst út 1909, en var endurútgefin á þjóðhátíðarárinu 1974. bók þessi var biblía Þursanna á fyrstu tveimur plötum þeirra."

Það er okkur öllum ljóst sem áhuga hafa á þjóðlögum að Séra Bjarni vann afrek og með byggingu Þjóðlagaseturs þá er verið að varðveita þennan fjarsjóð og miklu meira því safnið býður meðal annars uppá sögu rímnakveðskapar svo eitthvað sé nefnt.

Það er nefnilega svo að mjög margir hafa áhuga á íslenskum þjóðlögum og öllu sem því viðkemur og langar mig að nefna sérstaklega Gunnstein Ólafsson snilling sem farið hefur fremst í flokki á þessari uppbyggingu.

Ég skora á alla þá sem áhuga hafa á tónlist Þursanna að kynna sér safnið og það sem það hefur uppá að bjóða.

http://www.siglo.is/setur

droppedImage setur

 


Siglómóti í blaki 2008 lokið

það var skemmtilegt og fjörugt  mótið í gær hjá okkur blökurum á Sigló eins og endranær. það voru 12 lið sem mættu til leiks og hófst mótið kl 10:30 og lauk kl 17:00. Síðan var smá hittingur í Þjóðlagasetri Sr. Bjarna og var dreypt á léttum veigum og snakki og svo var lagið að sjálfsögðu tekið en við erum svo heppin að hafa í hópnum gítar og harmonikku leikara og þá mjög góða verð að segja það. Síðan var haldið í Allan og snæddur dýrindis mataur og dansað fram á nótt.

Á mótið koma sömu liðin ár eftir ár og hefur skapast mjög gott samband á milli þessara félaga svo ekki sé meira sagt, við höfum haft það fyrir sið að hittast í einhveju af þeim söfnum sem eru í bænum og var núna komið að Þjóðlagasetrinu. Allir  voru sammála um að þetta væri hið glæsilegasta safn og uppbyggingin alveg einstök ég heyrði á heimamönnum sem höfðu ekki komið þarna inn fyrr að þeir voru alveg furðu lostnir.

Svona að lokum þá verð ég að geta úrslita en í karlaflokki þá voru Fylkismenn sigurvegarar og hjá dömunum þá báru Krækjurnar (þessar elskur) sigur úr býtum. Svona að lokum þá vil ég þakka öllum þeim sem mættu og skemmtu sér með okkur.


Nú verða stálskipin rifin og seld í brotajárn......

það var 82. bæjarráðsfundur í gær og var eins og svo oft áður mörg mál á dagskrá. Það er kannski helst frá því að segja að fulltrúar meirihlutans Jónína Magnúsdóttir D lista og Hermann Einarsson B lista Bjarkey Gunnarsdóttir H lista sat hjá samþykktu að bæjarstjóri gengi til samninga við JPP verktaka og samningur gerður með ákveðnum skilyrðum og til prufu í eitt ár. En fyrirtækið sér um að hluta niður stálskip og nýta úr þeim það sem nýtilegt er. Síðan er gossið selt til útlanda.

það verður að viðurkennast að í mínu brjósti eru miklar hræringar vegna þessarar starfsemi, og skal ég útskýra af hverju.

Í ljósi íbúafunda þá sjá flestir framtíð í ferðamennsku og er það vel t.d. skútusiglingar, sjóstangaveiði skemmtiferðaskip svo eitthvað sé nefnt,  hluti þessa ferðaiðnaðar kemur að hafnarmannvirkjum okkar.

Svo er hin hliðin, fyrirtækið verður með aðstöðu við höfnina og er þetta ekki beint sú þrifalegasta starfsemi sem um getur, en tekjur fyrir höfnina. Fyrir utan svo ákveðna þjónustu og útsvarstekjur af starfsmönnum fyrirtækisins. Og ekki veitir af á þessum tímum loðnubrests og togara útgerð löngu farin frá Siglufirði.

Ég vil ekki dæma starfsemi þessa fyrirfram og ætla ég svo sannarlega að vona að þetta gangi allt saman og geti farið saman. Sé fyrir mér þegar túristar koma og skoða Síldarminjasafnið og sjá það stórkostlega safn og sögu síldveiða við klakann, síðan er farið með túristana og þeim sýnd tóm og yfirgefin loðnuverksmiðjan og við hliðin á henni þá er verið að rífa niður skipin sem veiddu meðal annars loðnuna. Sem sagt upphafið og endirinn á SILFRI HAFSINS. Já svona gerast nú hlutirnir á eyrinni á 21. öldinni.

Einnig kom á fund bæjarráðs sveitarstjóri Norðurþings Bergur Elías Ágústsson og fór yfir stöðu mála við undirbúning álvers við Bakka og óskaði eftir stuðningi Fjallabyggðar, en Akureyri og Dalvíkurbyggð hafa lýst yfir stuðningi við verkefnið. þar sem Bergur birtist óvænt og málið eingöngu til kynningar þá var ekki tekin afstaða á þessum fundi en það verður tekið fyrir n.k. fimmtudag.

Ég mun styðja þetta heilshugar enda mikilvægt mál fyrir svæðið þó verð ég að viðurkenna að ég var fylgjandi álveri á Dysnesi við Eyjarfjörð og voru vonbrigði mín mikil þegar sú tillaga var felld á Akureyri. 

Þeir sem vilja skoða fundargerðir sveitafélagsins skoðið þessa síðu www.fjallabyggð.is


Loðnubrestur og allt á leið til helvítis,,,

Það eru sorgarfréttir af blessaðri loðnunni, hún er týnd eða hvað? Það virðist ekki vera sama hver leitar þ.e.a.s. hvort það er Hafrannsóknarstofnun eða loðnuskipstjórar, mér finnst afar merkilegt að heyra frá skipstjórum sem halda því fram að það sé nóg af loðnu fyrir sunnan land og þeir hafi tilkynnt það til Hafró en þeir hafi ekki áhuga á að leita eða hreinlega hafi enga trú á þessum upplýsingum.

Það er nú svo að Siglufjörður hefur verið sá kaupstaður sem hefur farið hvað verst út úr viðskiptum við silfur hafsins, en eins og allir vita þá var fyrsta stóriðja landsins í kringum síldina á Sigló, og síðan tók loðnan við nokkuð seinna. Ég var starfsmaður hjá SR eða Síldarverksmiðjum ríkisins síðar SR mjöl og var ég kyndari en það er sá er stjórnaði eldþurrkuninni á loðnunni. Þetta er í kringum 1991 og voru þá um 30-40 manns á launum hjá SR.(Gætu hafa verið fleiri)

Nú í lok árs 1999 þá er tekið í gagnið nýtt þurrkhús gömlu eldþurrkararnir aflagðir og settir lofþurrkarar í þeirra stað endurbætur og fjárfesting upp á um 2 milljarða já 2 milljarða. En viti menn núna 9 árum síðar þá eru nýir eigendur SVN búnir að gefa það út að verksmiðjan verði aflögð og búnaður hennar verði rifin niður og seldur ef hægt verður.

það hefði þótt létt geggjaður(eða örugglega einn af englum alheimsins) sá aðili sem hefði haldið því fram árið 1999 að þessi stórkostlega og fullkomna verksmiðja yrði aflögð árið 2008.

Síðastliðin 2 ár þá hafa verið 3 starfsmenn á launaskrá hjá hinum nýju eigendum en voru 30-60 fyrir 10 til 15 árum.  

Svona er nú komið fyrir mörgum þeim stöðum sem hafa treyst eingöngu á það sem hafið hefur gefið okkur, og hver er afleiðingin jú það fækkar að sjálfsögðu á stöðunum.

Það er alveg ljóst að mótvægisaðgerðir verða að fara að virka beint til þeirra sem verst verða úti í þessum hamförum sem dynja yfir þessa daganna.

Sveitarfélögin eru mörg hver að skila tillögum til þeirra nefnda þ.e.a.s. Norðvestur og austur nefnda. Fjallabyggð er að vinna tillögur sínar og aðila atvinnulífsins til afgreiðslu til nefndar á vegum Forsætisráðuneytisins og verður þeirri vinnu lokið í enda mars.

Það eru líka mörg tækifæri hringinn í kringum landið en það sem að oft vantar er stuðningur frá ríkinu til að hrinda stórum hluta þessara framkvæmda í gagnið, en Geir og Össur hafa gefið boltann og er hann núna hjá sveitarfélögunum og verður sendur til baka og þá vonandi sem oftast í netið hjá þeim félögum.


Næsta síða »

Höfundur

Hermann Einarsson
Hermann Einarsson

Áhugamaður um allt milli himins og helvítis

 

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband