Leita í fréttum mbl.is

Héðinsfjarðargöng vígð

 Nú, þann 2. október, verður hátíð í Fjallabyggð vegna vígslu  Héðinsfjarðarganga. Þá opnast göng milli Ólafsfjarðar og Héðinsfjarðar, 6,9 km löng og önnur milli Siglufjarðar og Héðinsfjarðar 3,7 km. Verkið var unnið af Háfelli og tékkneska verktakafyrirtækinu Metrostav. Á sínum tíma voru samgöngur til Ólafsfjarðar og Siglufjarðar torsóttar. Úrbót varð árið 1967 þegar Strákagöng voru opnuð til Siglufjarðar og árið 1990 þegar göng um Ólafsfjarðarmúla voru tekin í notkun. Nú sér fyrir endann á tengingu þessara tveggja byggðakjarna. Mikil breyting verður á því í framtíðinni þurfa íbúar Fjallabyggðar ekki að reiða sig á Lágheiðina sem á það til að vera ófær eða torsótt stóran hluta vetrar.  

Mikilvæg samgöngubót

Nýju Héðinsfjarðargöngin munu hafa afgerandi jákvæð áhrif á samfélagið í Fjallabyggð og voru í reynd forsenda þess að fyrrum sveitarfélög á svæðinu sameinuðust í eitt. Sú sameining hefur gengið vel fyrir sig en mun nú nýtast að fullu þegar göngin opna. Jarðgöngin munu einnig efla þéttbýliskjarnana við Eyjafjörð því með göngunum verður til samfellt atvinnusvæði sem nær frá Akureyri til Siglufjarðar með ríflega 20 þúsund íbúum. Það getur meðal annars leitt til fjölbreyttari starfa, minna atvinnuleysis, hærri launa, lægra vöruverðs og fjölbreyttari verslunar og þjónustu. Auk þess skapast margvísleg ný tækifæri í ferðaþjónustu á Norðurlandi. Ólafsfjörður og Siglufjörður hafa um langt skeið þurft að glíma við hnignun í frumframleiðslu og umtalsverða fólksfækkun sem dregið hefur úr lífsgæðum á svæðinu. Með göngunum verður þessari þróun vonandi snúið við og er það ein meginröksemdin fyrir fjárfestingunni sem í þeim felast.

 Rannsókn á samgöngum og byggðaþróun

Háskólinn á Akureyri hefur unnið að rannsóknarverkefninu Samgöngubætur og byggðaþróun: Félagsleg, efnahagsleg og menningarleg áhrif Héðinsfjarðarganga á mannlíf á norðanverðum Tröllaskaga. Verkefninu er ætlað að leggja heildstætt mat á stöðu Fjallabyggðar og þær breytingar sem vænta má á samgöngumynstri, búsetuþróun, efnahagslífi, opinberri þjónustu og félagslegum auð í kjölfar opnunar ganganna. Jafnframt er verkefninu ætlað að styrkja fræðilegan grundvöll fyrir mati á samfélagslegum áhrifum jarðgangagerðar á landinu almennt. Rannsóknin hófst haustið 2008 og er áætlað að hún standi til ársloka 2012. Hún er unnin með tilstyrk Rannsóknasjóðs Vegagerðarinnar sem veitti styrk til hennar árin 2009 og 2010. Tólf kennarar og sérfræðingar við Háskólann á Akureyri hafa jafnframt tekið virkan þátt í rannsókninni. Þóroddur Bjarnason, prófessor í félagsfræði, átti frumkvæði að rannsókninni og hefur stýrt henni frá upphafi. 

Eljusamir frumherjar

 Árið 1990 lagði frumherjinn Sverrir Sveinsson, Framsóknarflokki, fyrst fram þingsályktunartillögu á Alþingi um jarðgöng milli Ólafsfjarðar og Siglufjarðar í framhaldi af opnun jarðganga um Ólafsfjarðarmúla. Meðflutningsmenn Sverris að tillögunni voru Halldór Blöndal, Jón Sæmundur Sigurjónsson, Jóhannes Geir Sigurgeirsson, Ragnar Arnalds, Árni Gunnarsson og Pálmi Jónsson. Hafa þessir menn alla tíð stutt göngin af eljusemi. Þótt á engan sé hallað skal einnig nefnt að tveir menn, þeir Halldór Ásgrímsson og Davíð Oddsson, áttu afgerandi þátt í að verkið varð að veruleika. Samgönguráðherrarnir Sturla Böðvarsson og Kristján L. Möller hafa einnig lagt sitt lóð á vogarskálarnar ásamt heimamönnum. Nú er að rætast stór draumur. Mikil tilhlökkun er í heimamönnum að fá almennilegar samgöngubætur á milli þessara svæða sem og þann hring sem opnast á Norðurlandi. Siglufjörður og Ólafsfjörður eru ekki lengur endastöð.    

Hermann Einarsson, fyrrum bæjarfulltrúi í Fjallabyggð


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Hermann Einarsson
Hermann Einarsson

Áhugamaður um allt milli himins og helvítis

 

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 4
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 4
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband